ingunnhuld frontcover 496x496 rgbRecordings of the debut LP album Fjúk started in the end of February 2015 and the album was released the 3rd of November that same year. Fjúk consists of 11 original songs and lyrics by Ingunn Huld and along with her the musicians that play on the album are: Ásgeir Ásgeirsson: guitars and saz, Erik Quick: drums and percussion, Birgir Bragason: electric bass and double bass, Ólafur Schram: piano, keyboards, accordion, hammond and synths, Unnur Birna Bassadóttir: violin, Hallgrímur Jónas Jensson: cello, Stefán Örn Gunnlaugsson: percussion, mandolin, piano and backing vocals in the song “Á vit ævintýra”. Ingunn Huld Sævarsdóttir sings melodies and backing vocals and plays piano in the song “Sonnetta um sumartíð”. Birkir Rafn Gíslason recorded instruments in Stúdíó Geimsteinn and Stefán Örn Gunnlaugsson recorded instruments and vocals in Aldingarðurinn. Stefán Örn Gunnlaugsson mixed the album and Bjarni Bragi Kjartansson mastered the album. Arrangements are by Ingunn Huld Sævarsdóttir along with the creative imput from the musicians and Stefán Örn Gunnlaugsson arranged for percussion, mandolin and piano in the song “Á vit ævintýra”. Alfreð Ingvar created the album cover in collaboration with Ingunn Huld, took the photographs and did design and layout.

Ingunn Huld Sævarsdóttir published the album and it can be found here: ingunnhuld.bandcamp.com


Breiðskífan Fjúk kom út 3. nóvember 2015 og hófust upptökur í lok febrúar sama ár. Fjúk inniheldur 11 frumsamin lög og texta og á henni leika: Ásgeir Ásgeirsson á gítara og saz, Erik Qvick á trommur og slagverk, Birgir Bragason á raf- og kontrabassa, Ólafur Schram á píanó, hljómborð, harmonikku, hammond og hljóðgervla, Unnur Birna Bassadóttir á fiðlu, Hallgrímur Jónas Jensson á selló, Stefán Örn Gunnlaugsson á slagverk, mandólín, píanó og bakrödd í laginu ,,Á vit ævintýra”. Ingunn Huld Sævarsdóttir syngur laglínur og bakraddir og leikur á píanó í laginu ,,Sonnetta um sumartíð”. Birkir Rafn Gíslason tók upp hljóðfæraleik í Stúdíó Geimsteini og Stefán Örn Gunnlaugsson tók upp hljóðfæraleik og söng í Aldingarðinum. Stefán Örn Gunnlaugsson sá jafnframt um hljóðblöndun og Bjarni Bragi Kjartansson annaðist hljómjöfnun. Útsetningar laganna eru í höndum Ingunnar Huldar Sævarsdóttur ásamt skapandi framlagi hljóðfæraleikaranna og Stefán Örn Gunnlaugsson annaðist útsetningar fyrir slagverk, mandólín og píanó í laginu ,,Á vit ævintýra”. Alfreð Ingvar sá um ljósmyndir, hönnun og uppsetningu plötuumslags.

Ingunn Huld Sævarsdóttir gefur plötuna út sjálf og hana má m.a. finna í plötubúðinni Lucky Records, 12 tónum, Jötu, Eymundsson, Heimkaup.is, á tónleikum hjá Ingunni Huld, og Sunnlenska bókakaffihúsinu á Selfossi og á ingunnhuld.bandcamp.com

 

Fjúk átti upprunalega að innihalda tíu lög á íslensku og þrjú á ensku en í gegnum upptökuferlið duttu ensku lögin út og undir lokin bættist eitt lag við á íslensku svo þau eru ellefu talsins.

Lögin á plötunni heita:
Upp, Umvafin, Hugfesting, Fátt, Hetjudáðir, Orðræða, Sonnetta um sumartíð, Loforð, Undraveröld, Á vit ævintýra, Skin og skúrir

Öll lög og textar eru eftir Ingunni Huld Sævarsdóttur.
Elsti textinn er frá árinu 2004 og sá yngsti var saminn haustið 2013.
Lögin eru samin á tímabilinu 2010-2014.

 


Upp

Gegnum dimman dal,
drungalega skóga,
þegar fætur dreg
dreg ég mig að þér.

Og ef allt er svart,
svíðandi er hjartað,
sorgin fyllir huga
bugast ég ei.

Er ég lít til þín,
stormurinn dvín
og ég veit þú gætir mín.
Er ég lít til þín,
stormurinn dvín
svo ég horfi upp til þín.

Yfir ótal fjöll,
um ægilega vegu,
veðurofsa í
sný ég mér til þín.

Og þú hefur mig í hendi þér,
ekkert fær mig bugað.
Þegar vanmáttug
ég lít þig almáttugan
áhyggjurnar þær gufa
upp.


Umvafin

Sigli undir litríku laufaskrúði,
lífið allt umvefur mig.
Líð ég áfram, lækurinn leiðir mig,
með vind í eyrum hlusta.

Ferðast áfram, fjúkandi ævintýr
finnast uppi’ í skýjunum.
Loka augum, anganin fyllir vit
og umvefur mig hlýju.

Sit ég heima, söngla við gluggann lag,
sé í lofti leika sér
litlar stjörnur sem stíga við daginn dans
og dularfullar flögra.


Hugfesting

Ég veit að það stundum væsir
um viðkvæman huga þinn,
á erfiðum degi dæsir
og depurðin læðist inn.

Og oft er í kyrrð á kvöldin
þú kúrir og hvílir þig;
vandamál taka völdin,
vinda svo upp á sig.

Skuggarnir undir skýjum
skelfa og hrella þig.
Bambalóin og bíum;
bið eftir degi nýjum.

Áhyggjur magna ótta þinn,
örmagna verður hugurinn.

Og jafnvel um miðjan morgun
er mildasta sólin rís,
þú sefur í þínum sorgum
svo fjarri paradís.

En líttu til himins hæða
og hugfestu þetta eitt:
Gleði mun framtíð fæða
friðurinn kvíða bræða.

Áhyggjur megna ekki neitt,
eftirvænting fær öllu breytt.


Fátt

Það er fátt sem er fegurra en hrein ást,
það er fátt sem mig fangar líkt og þú.


Hetjudáðir

Ef líf mitt í samhengi set ég við þitt
svífa burt áhyggjutárin.
Af þolgæði einu, þó hafi’ ei þig hitt,
þú harkaðir gegnum árin.

Þú lést ekki deigan síga í sorg
þó sár væri víst þinn missir
er húsbóndinn ástkær við höfuðborg
himinn og eilífð kyssir.

Af alúð og kærleika annaðist börn
og ólst þau við fjallsins rætur.
Hjarta þíns eflaust einasta vörn
var ástin, þú stóðst í fætur.

Barátta lífsins var löngum þér hörð
og lítið á milli handa,
léstu þó þína þakkargjörð
þunglyndi’ og depurð granda.

Er virði ég fyrir mér fúsleika þinn
og festu í ólgusjó söltum,
aðdáun fyllir æ huga minn
sem oft stendur fótum völtum.


Orðræða

Orðræðu þessa ég undrast,
engum boðum hún lýtur,
óréttlæti sem sundrar
og sínum örvum skýtur.

Ég get ekki lokað augunum
á tárvotum koddanum.

Þrjú hundruð lífum er lokið,
les ég það í blöðum,
friðurinn nú hefur fokið,
fallið í blóðböðum.

Ef ég gæti með báðum höndum
gripið fast
svo gerði gagn.
Ef ég gæti með orðum mínum
hrópað hátt,
opnað hjörtu upp á gátt.

Dýrmætar stúlkur og drengir
dáin voru í morgun,
stungnir úr hjartanu strengir,
stríð er hamslaus borgun.

Ég get ekki lokað augunum.
Ég vil ekki loka augunum.


Sonnetta um sumartíð

Á kuldamyrkum degi læt mig dreyma
um dásamlega, sumarbjarta daga.
Ég svíf um stund um hugans ljúfu heima
með hlýju’ í sál og tilhlökkun í maga.

Ég hlusta’ á söngsins fugla’ og tíni fífur,
falin milli stráa horfi’ á skýin
sigla’um bláan himinn þar til hrífur
hörkugaddur drauminn burtu’ og fríin.

Tek mig til í raunheimi og reikna
hve rökkurtíðin lengi köld muni vara
og hrollur kaldur hríslast um mig alla.

Svo reyni ég með texta ljóðs að teikna
töfrasumarmynd í huga, bara
ímynda mér allt blessað sem má bralla.


Loforð

Litrík ský,
ljósadýrð,
morgunsól.

Stöku blóm
teygir höfuð yfir tún;
dropaflóð.

Fuglager
á himninum leikur sér;
lofandi.

Bráðnandi
hjarta mitt.

Lifnuð tré,
lifnuð er líka ég;
vonandi.


Undraveröld

Undraveröld vetrar fríð
vonir glæðir hreinar
þegar dúnmjúk hylur hríð
húsþök, tré og greinar.

Hvað er fegurra’ en foss í klakaböndum,
fjúk sem bráðnar við hlýju’ í litlum höndum,
himinn sem vaknar á hádegi litafagur
og heilsar stoltur þó löngu sé kominn dagur?


Á vit ævintýra

Þegar draumur verður að veruleika
verður veruleikinn sem draumur.
Nú sællega læturðu hugann reika
og heldur út í heim
á vit ævintýra,
lætur hjartað stýra för.

Ef vindur stendur í fang þitt opið
og erfitt verður um skref
þér aldrei kemur til hugar hopið
þess heldur feykir hann þér
á vit ævintýra,
þú lætur hjartað stýra för.

Af himni stjörnurnar stara niður
og stíga taktfastan dans,
herskarinn fagur himins styður
og stefnir þér með glans
á vit ævintýra,
lætur hjartað stýra för.

Þegar fætur lenda á föstu landi
þú leggur hart að þér.
Fyrir þér virðist ekkert vandi,
vonin flýgur með þig
til ævintýra,
lætur hjartað stýra för.


Skin og skúrir

Þegar haustar að í hjarta mínu
hef ég þörf að dvelja’ í orði þínu,
upplifa kærleik þinn og kraft að verki
kletturinn minn styrki’ og ofursterki.

Þegar ég átt hef indælis sólarstundir
enn á ný kemur haustið og fölna grundir.
Aldeilis verða það ekki fagnaðarfundir,
fegin ég vildi, Drottinn, að þú myndir

fylla líf mitt af löngum sumardögum,
lækjanið og fuglanna söng og lögum.
Gleðjast ég myndi sérhvern dag og dreyma
dæmalaust mikla sælu’ og sorgum gleyma.

En hvernig væri lífið án vinda og vanda,
væri það eintóm ánægja mér til handa?
Myndi það gera mér gott aldrei að gráta
og gera mig sterka’ ef ekkert myndi’ á bjáta?

Ég eitt sinn las í bók fyrir litla krakka
að kærlega ætti ég fyrir allt að þakka,
tilgang rigningardagar dimmir hefðu,
depurð og sæla saman líf mitt vefðu.

Eftir rigningu kemur regnbogi’ á himni,
rísa mun sólin upp svo vætu linni.
Eirðarleysi allt mun enda taka,
úr alls kyns hráefnum verður gómsæt kaka.

soundcl 1facebook 1bandcamp bwyoutube bw